Valin gögn úr Íslenskri nútímamálsorðabók. Eftirfarandi ber að hafa í huga við notkun gagnanna. 1. Sum orðin hafa ákveðinn merkimiða (gefinn sem gagnategundin SVIÐ eða NOTKUN). Hann segir til um: a) fagsvið orðsins; b) málnotkun; c) málsnið. Óæskilegt er að aðskilja SVIÐ og NOTKUN frá uppflettiorðinu. Dæmi um SVIÐ: jarðfræði, efnafræði, líffræði, lögfræði, þjóðtrú. Dæmi um málnotkun: tónleikar NOTKUN: 'einkum í fleirtölu'; Atlantshaf NOTKUN: 'oftast með greini'; fæð NOTKUN: 'í samsetningum'. Dæmi um málsnið: niggari NOTKUN 'niðrandi'; sveitalubbi NOTKUN: 'niðrandi'; bömmer NOTKUN: 'óformlegt'; kvonfang NOTKUN: 'hátíðlegt'. 2. Sum orð koma aðeins fyrir í föstu orðasambandi. Orðið er þá (nánast) merkingarlaust án þess samhengis. Dæmi: hagnaðarskyn, halloka, harðbakki, haustlag, heimsvísa, heimsmælikvarði, hvippur, hvappur. Þetta á við um tæp 1000 orð eða um 2% orðaforðans. 3. Sumar sagnir koma aðeins fyrir með skyldubundnum rökliðum og eru vart merkingarbærar án samhengis. Samhengi sagnar og rökliða er gefið með gagnategundinni SOSTÆÐA. Dæmi: fyrirberast (láta fyrirberast), barma (barma sér), biðjast (biðjast fyrir, biðjast lausnar o.fl.), fjölyrða (fjölyrða um e-ð), greikka (greikka sporið), þrjóskast (þrjóskast við). 4. Sumar flettur hafa aðeins vísun í aðra flettu, oft vegna mismunandi orðmyndar eða ritháttar. Dæmi: blómskipan -> blómskipun; hvorumegin -> hvorum megin. 5. Margar flettur hafa tvo eða fleiri merkingarliði (gagnategund LIÐUR). Varast skal að blanda saman merkingum í mismunandi liðum. Dæmi: hamar (3 liðir), hvellur (3 liðir), mark (7 liðir). 16.12.2020 Halldóra Jónsdóttir Þórdís Úlfarsdóttir